Myndina tók Árni Jónsson í afmælisgöngu 2009

Allt frá stofnun Hjálparsveitar skáta í Kópavogi hafa farartæki verið félögum hugleikin og meðal annars fór hluti stofnfundar í  að ræða bílamál.

Umræðan hefur verið skemmtileg og skoðanir skiptar um val bíla og búnaðar í bílana. Við tókum saman lista yfir bíla sem verið hafa í eigu sveitarinnar – sjá Bílasagan.

Fyrsti bíllinn tók mikinn tíma félaga enda þarfnaðist hann mikils viðhalds. Sagt var um þann bíl að hann hefði verið „búinn öllum hugsanlegum bilunum.“

Hægt og bítandi með mikilli vinnu byggðu félagar sveitarinnar þó upp bílakostinn og hér má sjá upptalningu þeirra bíla sem sveitin hefur átt. Þegar bílar fengust  fyrir lítið fé var viðhaldsvinna oft ærin.

Fjarskiptabúnaður í bílunum var ekki öflugur í fyrstu, en það var t.d. CB talstöð sem virkaði nánast bara í kallfæri og svo Gufunesstöð sem var stór járnhlunkur með stóru loftneti. Þá var heldur ekki útvarp í bílunum og komu ekki fyrr en félagar stofnuðu sjoppu í Skemmunni og nýttu hagnað af henni til tækjakaupa. Þá var hægt að hlusta á ABBA lögin í langferðum.

Lagaður til með sleggjum

Einn sögufrægasti bíll HSSK – Y 1845 – var notaður í aðgerðum í Vestmannaeyjagosinu og nýttist í allt sem þurfti frá flutningi á rollum til ráðherra. Þegar flytja átti bílinn til Eyja lá við að hann kæmist ekki með, en menn dóu ekki ráðalausir. Í myndskeiðinu hér fyrir neðan má sjá frásögn af því.

Fyrstu bílarnir voru málaðir appelsínugulir til að þeir væru áberandi og sæjust vel í landslaginu.  Þegar sveitin keypti fyrstu Amerísku bílana sem voru GMC og Chervolet Van bílar voru þeir látnir halda sínum litum, en reyndar var tekist á um það á sveitarfundi hvort það ætti að sprauta röndina í sama lit til að það sæist minna að við ættum tvo slíka bíla.

Bílabreytingarsaga sveitarinnar hófst fyrir alvöru með tilkomu amerísku bílanna. Meðal annars var sett No spin læsing í afturdrifið á Gemsanum og Lapplander dekk, sem þóttu stór á þeim tíma. Upp frá þessum tíma hefur sveitin verið í fararbroddi með að breyta bílum þannig að þeir henti sem best til björgunarstarfa.

Viltu bæta við þessa frásögn?

Hafðu samband við sögunefndina