
Stofnfundur Hjálparsveitar skáta var haldinn þriðjudaginn 4. nóvember 1969.
Átta félagar sátu stofnfundinn en það voru Haraldur Friðriksson formaður, Einar Stefánsson gjaldkeri, Bjarni Þormóðsson ritari, Þorvaldur Sigmarsson, Gunnsteinn Sigurðsson, Pétur Pétursson, Steingrímur Hauksson og Sigurður Konráðsson. Stofnfélagarnir eru þó fleiri því að á sveitarfundi síðar í mánuðinum var samþykkt að ekki væri nauðsynlegt að hafa sótt stofnfundinn til að teljast stofnfélagi.
Fyrir stofnfundinn hafði verið haldinn stjórnarfundur og lög sveitarinnar lágu fyrir og voru þau samþykkt eftir að hafa verið rædd lið fyrir lið, eins og segir í fundargerð stofnfundarins.
Fjölmörg önnur mál komu til umræðu og má segja að þau séu félögum sem gengu síðar í hjálparsveitina öll kunnugleg, en eftirfarandi má lesa í fundargerð „Í öðru lagi var rætt um einstaklingsbúnað, þriðja lagi um sveitarbúnað, í fjórða lagi bílakaup og var það aðalumræðuefni kvöldsins,“ segir í fundargerð. „Það var mikið rætt um einn ákveðinn bíl og hvernig við gætum eignast hann og komið í notkun fyrir sveitina og margt fleira og það samþykkt. Í fimmta lagi var rætt um húsnæði og í sjötta lagi um nýja félaga og var það samþykkt að þeir yrðu teknir inn í sveitina með því að hafa verið skátar eða þá að verða skátar og hafa 18 ára aldurstakmark.“
