„Við höfðum bæði reynslu af því að starfa saman í lýðræðislegu starfi eins og skátastarf er og einnig höfðum við tekist á við krefjandi  verkefni.“

Gunnsteinn Sigurðsson, einn stofnenda Hjálparsveitar skáta í Kópavogi rifjaði upp fyrstu árin.

„Það sem dreif okkur áfram var viljinn til að vera  saman og láta gott af okkur leiða,“ segir Gunnsteinn og rifjar upp að stofnfélagarnir sem flestallir komu úr skátafélaginu Kópum vildu halda tengingunni við félagið og litu á hjálparsveitina sem framhald skátastarfsins. „Við vorum ekkert endilega ákveðnir í að stofna hjálparsveit og það voru vangaveltur um að stofna Róversveit“, sagði hann.

Gunnsteinn rifjaði upp aðdragandann að stofnun HSSK í samtali sem tekið var í tilefni af 50 ára afmæli sveitarinnar. Gunnsteinn,  Sævar Skaptason, Sólveig Þorvaldsdóttir og Aðalsteinn Maack mættu í sögustofu til að ræða starf sveitarinnar og er myndskeiðið frá þeirri stund.

Upptökurnar frá fyrstu árunum tók Sigurður Konráðsson á 8 mm filmu.  Hluti myndanna eru tekin í skátaskálanum Þristi, en margir félagar komu að byggingu hans og einnig var hluti hópsins að skemmta sér við að gera upp Dodge weapon á þessum árum.

Stofnfélagar Hjálparsveitar skáta í Kópavogi eru:

 • Bjarni Þormóðsson
 • Einar Stefánsson
 • Finnur Þór Friðriksson
 • Garðar Guðmundsson
 • Gunnsteinn Sigurðsson
 • Haraldur Friðriksson
 • Kristján Leifsson
 • Oddur B. Grímsson
 • Pétur Maack Pétursson
 • Sigurður Konráðsson
 • Steingrímur Hauksson
 • Þorvaldur J. Sigmarsson

Viltu bæta við frásögnina eða koma öðru efni á framfæri?

Hafðu samband við sögunefndina