
„Við byrjuðum árið 1962 og á því ári náðum við að reisa sperrurnar,“ segir Haraldur Friðriksson sem var í hópi þeirra sem reistu skátaskálann Þrist í Þverárdal við Esjurætur.

Haraldur Friðriksson er stofnfélagi HSSK
Haraldur rifjaði upp söguna þegar stofnfélagar Hjálparsveitar skáta í Kópavogi heimsóttu skálann 4. maí 2019. „Svo vorum við bara að allar helgar í sex ár og það voru margir sem komu að verkinu,“ segir Haraldur. „Þegar við vorum búnir þá höfðum við ekkert að gera og það endaði með því að við stofnuðum hjálparsveitina.“
Haraldur og félagar sem litu við í Þristi rifjuðu upp nokkrar sögur frá byggingartíma Þrist. – Þetta var oft mikið vesen að komast hingað uppeftir, segir Haraldur. Félagarnir settu mikla vinnu í að koma byggingarefni uppeftir, en sæta þurfti lagi til að geta dregið efni á sleðum á staðinn þannig að ekki sykki það í drullu sem gjarnan er að vori og hausti. Í dag er hægt að keyra að skálanum og á fólksbílum upp að ánni, en áður fyrr var aðeins akfært að Hrafnhólum.
„Ég er stoltur af því hvað þetta hefur tekist vel,“ segir Haraldur ánægður með afrek félaganna.
Landið fékkst eftir samtal við sveitarstjórann gegn því að skátafélagið útvegaði mannskap í smalamennsku og lengi vel smöluðu skátar með bændum í sveitinni.
8 mm filman hans Sigga Kon
Sigurður Konráðsson tók myndir á 8 mm filmu á upphafsárum hjálparsveitarinnar og árin þar á undan þegar stofnfélagarnir tóku þátt í að byggja skátaskálann Þrist. Í vídeóinu rifjar hann upp þessa tíma með Bjarna Þormóðssyni.
You must be logged in to post a comment.