
Það tók félaga í bátaflokki HSSK aðeins 19 mínútur á ná í vélarvana bát eftir að útkall barst síðdegis 30. september 2019.
Bátaflokkurinn hafði verið við æfingar á bát sveitarinnar, Stefni, en verið var að þjálfa nýjan mannskap og njóta góða veðursins. „Hópurinn stoppaði í Reykjavíkurhöfn og sat á Hamborgarabúllu Tómasar þegar útkall barst kl. 14:27 um vélarvana bát á reki í átt að landi, við Kópavogshöfn. Með hálfétinn hamborgara í hendinni hljóp hópurinn af stað og sigldi fulla ferð yfir að Kópavogshöfn og fann þar bátinn og 19 mínútum eftir að útkallið barst var báturinn komin í tog og dreginn í land án vandræða,“ segir í frásögn á Facebook síðu Hjálparsveitar skáta í Kópavogi.
Fjórða útkall helgarinnar
Þetta var ekki fyrsta útkallið sem HSSK tók þátt í að bregðast við þessa helgi. Á föstudagskvöldi var að beiðni lögreglu og haldið í leit að konu sem lýst hafði verið eftir. Hún fannst heil á húfi uppúr miðnætti.
Á laugardegi var hópur frá HSSK á fagnámskeiði í fjallamennsku með félögum sínum frá Hjálparsveit skáta í Reykjavík þegar ósk kom um að aðstoða fólk sem hafði lengt í sjálfheldu við Tröllafoss. Síga þurfti niður til hópsins og hjálpa honum niður eftir ánni. Aðgerðin tók hátt í tvo tíma.
Stuttu seinna kom svo útkall vegna óhapps á Nesjavallavegi og var haldið þangað. Sjúklingur var hins vegar kominn í sjúkrabíl áður en hópurinn gat aðstoðað.

Allt er gott sem endar vel
Sagt var frá þessari viðburðaríku helgi á Facebook síðu hjálparsveitar skáta í Kópavogi

You must be logged in to post a comment.