Frá skyndihjálparæfingu

Mikil áhersla hefur verið lögð á verklega þjálfun félaga HSSK, Mynd úr 20 ára afmælisblaði HSSK.

Þjálfun félaga Hjálparsveitarinnar í Kópavogi hefur tekið miklum breytingum í áranna rás. Fyrstu tuttugu árin urðu miklar breytingar, leiðbeinendur sóttu sér menntun í auknum mæli og kröfur til þjálfunar voru settar. Í frásögn í afmælisriti sem gefið var út á tuttugu ára afmæli sveitarinnar má glögglega finna þann metnað sem liggur að baki bæði almennri þjálfun sem og nýliðaþjálfun.

Á þessum árum undir lok níunda áratugarins voru öll námskeið í grunnþjálfun nýliða kennd af leiðbeinendum með réttindi frá Björgunarskóla Landssambands hjálparsveita skáta (LHS). Björgunarskólanum óx einnig ásmegin á þessum árum og tóku félagar úr HSSK virkan þátt í uppbyggingu skólans. Þess má geta að tveir félagar HSSK voru yfirkennarar á þessum árum, þau Sólveig Þorvaldsdóttir og Björgvin Richardsson.

Mikill metnaður fyrir þjálfun félaga sveitarinnar skín í gegn í frásögn í afmælisriti HSSK 1989

Í afmælisriti HSSK 1989 segir frá þeim kröfum sem gerðar voru til grunnþjálfunar nýliða og segir þetta yfirlit nokkra sögu:

  • Skyndihjálp – tvö helgarnámskeið með verklegum æfingum. Nýliðar eiga að geta starfað sjálfstætt og með öðrum í sjúkraaðgerðum.
  • Almenn ferðamennska – tvö kvöld. Hér fá nýliðar að vita hvernig á að útbúa sig við verstu aðstæður.
  • Rötun – á því námskeiði lærðu nýliðar á notkun áttavita, korta og annarra þátta til að rata við verstu aðstæður, því eins og segir í afmælisritinu „… menn verða að geta bjargað sjálfum sér áður en þeir fara að bjarga öðrum.” Kennslunni fylgdu svo að sjálfsögðu verklegar æfingar.
  • Leitartækni 1 – fjallaði um boðun leita, leitirnar sjálfar og kynningu á leitarstjórnum, þannig að nýliðar væru hæfari til að taka þátt í leitaraðgerðum.  Eftir námskeið var haldin útiæfing þar sem líkt var eftir útkalli.
  • Fjarskipti – Þar var farið yfir uppbyggingu fjarskiptakerfis björgunarsveitanna, meðhöndlun og notkun fjarskiptatækja. Snjóflóðaleit – samanstóð af fyrirlestri um snjósöfnun, orsakir snjóflóða, leiðarval í fjalllendi og snjóflóðabjörgun. Námskeiðinu lauk síðan með útiæfingu í snjóflóðaleit.
  • Vetrarfjallamennska – fjallaði um ferðir í íslensku fjalllendi við erfiðustu aðstæður að vetri til. Farið var yfir undirbúning ferða, útbúnað, snjóklifur og tryggingar í snjó, auk þess að kenna leiðarval. Að loknu kvöldnámskeiði var farið í æfingaferð yfir helgi.
  • Ísklifur – þar sem farið var yfir grundvallaratriði í göngu á is og almennt klifur.

Að loknum þessum grunnnámskeiðum var hægt að sækja fleiri námskeið í Björgunarskólanum. Og rétt eins og til að tryggja að menn teldu sig ekki orðna of góða að lokinni nýliðaþjálfuninni segir í greininni: „Þótt nýliði hafi farið í gegnum þessi grunnnámskeið er ekki þar með sagt að hann sé fullþjálfaður því besta þjálfunin er reynslan.”   

Frásögn af nýliðaþjálfun í afmælisblaði HSSK frá 1989:

Viltu bæta við frásögnina eða koma öðru efni á framfæri?

Hafðu samband við sögunefndina