Það er 491 félagi sem hefur klárað nýliðastarfið og fengið formlega inngöngu í Hjálparsveit skáta í Kópavogi og að auki eru tveir nýliðahópar í sinni 2ja ára þjálfun. Annar nýliðahópurinn lýkur í vor og fær þá formlega inngöngu og hinn hópurinn sem var að byrja núna lýkur ári síðar.

Það má því með sanni segja að rúmlega 500 manns séu í starfi eða hafi í gegnum tíðina starfað í sveitinni, segir Magnús Hákonarson, en hann hefur haldið utan um tölfræði sveitarinnar í á annan áratug. Að auki eru fjölmargir sem hafa komið að starfi í sveitinni með einum eða öðrum hætti í gegnum tíðina.

Úr æfingarferð

Ljósmyndina tók Árni Jónsson í æfingaferð á Kerlingu.

Úr gagnagrunni HSSK / Samantekt Magnús Hákonarson.

Samantekt Magnúsar sýnir  að fjöldi fullgildra félaga jókst verulega eftir 2008, en í nýir félagar eru 7 til 10 sinnum fleiri á ári núna en var fyrstu áratugina í starfi sveitarinnar. Fjöldi þeirra sem byrja í nýliðaþjálfun er þó mun meiri því aðeins um 25% af þeim sem skrá sig í nýliðaþjálfun ljúka henni og enda sem fullgildir félagar. „Við erum að skoða hvernig við náum stærra hlutfalli í gegnum þjálfunina,“ segir Magnús og upplýsir að einn liður í því sé að boða nýliða í útköll, þó það sé svo metið hverju sinni hvort aðgerðin bjóði upp á þátttöku nýliða. Það sé þó mikilvægt að nýliðar fái þá þjálfun og reynslu sem útköllin gefa. Nýliðar fái þannig smjörþefinn af starfinu sem býður þeirra.

Sjá félagaskrá HSSK frá upphafi.

Félagar á útkallsskrá eru í  dag 160 talsins og mikil reynsla þar samankomin. Magnús upplýsir að úr tölfræðigögnum megi lesa að aðeins um 10% tímans í hjálparsveitinni eru útköll.

Viltu bæta við þessa frásögnina eða koma öðru efni á framfæri?

Hafðu samband við sögunefndina