„Tetra er ekki treystandi,“ sagði í fyrirsögn Morgunblaðsins laugardaginn 14. desember 2019 og yfirlögregluþjónninn á Norðurlandi vestra upplýsti að Tetra-kerfið hefði legið niðri í Skagafirði í hátt í sólarhring. Fara þyrfti yfir áreiðanleika kerfisins.

Þessi tíðindi voru ekki ný fyrir félaga í björgunarsveitunum. Fyrr í vetur, mánuði áður en fjarskiptamál lentu á forsíðu Moggans,  fengum við Völu Dröfn Hauksdóttur, félaga í Hjálparsveit skáta í Kópavogi, til að segja okkur frá fjarskiptamálum sveitarinnar. Hún reyndist forspá um Tetrakerfið. Vídeó með henni er neðar á síðunni.

„Fjarskiptatæki sveitarinnar í gegnum tíðina ættu öll að geta virkað áfram í dag,“ segir Vala Dröfn Hauksdóttir félagi í Hjálparsveit skáta í Kópavogi. „Strangt til tekið væri hægt að taka hundgömlu Gufunestalstöðina sem er til hér upp í skáp og kveikja á henni  og hún myndi mjög líklega virka og væri hægt að ná í einhverja því það er verið að nota sömu tíðnir og allt það“.

Náðu andskotann út um allt

Telefunken stöðvarnar sem sveitin hefur átt í um fjóra áratugi eru í eftirlæti hjá Völu. „Maður náði andskotann út um allt,“ segir Vala. Þær stöðvar byggja á VHF kerfinu. Um aldamótin kom Tetra kerfið, sem byggir meira á tölvutækninni og Vala er meðvituð um gallana sem í því kerfi leynast.

Mikil umræða átti sér stað innan björgunarsveitanna um nýja kerfið þegar það var innleitt og hvort kveðja ætti gamla kerfið.

„Blessunarlega bar okkur gæfa til að halda VHF kerfinu lifandi vegna þess að ef kemur til stórskaða þá lifir Tetra kerfið bara takmarkað, en VHF kerfið okkar lifir svo lengi sem við náum að hlaða rafhlöðurnar okkar og svo lengi sem endurvarparnir ná að hlaða sig á sólarrafmagni,“ segir Vala Dröfn. Sama gildir um farsímakerfið, sem dettur út eftir tvo sólarhringa ef rafmagnið fer.

Viðtalið við Völu Dröfn hér fyrir neðan var tekið fyrr í vetur.