Fyrstu árin hafði Hjálparsveitin aðsetur í skátaheimilinu. Stofnfélagar höfðu allir starfað í skátafélaginu Kópum og í fyrstu var eins og sveitin væri hluti af skátafélaginu.  Stofnfundur var haldinn í skátaheimilinu, sem þá var á Hraunbraut.

Fljótlega varð aðkallandi að bæta úr húsnæðismálum sveitarinnar, en sérstaklega vantaði aðstöðu fyrir búnað og til að gera upp Bedfordinn, fyrsta bílinn sem sveitin eignaðist.

Skemman

Slysavarnardeildin Stefnir og HSSK sóttu sameiginlega um aðstöðu í Hafnarskemmunni sem var í eigu Kópavogsbæjar.  Bréf var sent til bæjaryfirvalda í lok árs 1972. Af milkilli hógværð var falast eftir afnotum af einu sperrubili og áhersla lögð á að þetta ætti að leysa húsnæðisvanda beggja sveita.  Lögð var áhersla á að góð samvinna yrði með sveitunum og alger helmingaskipta regla gilti. Strax eftir að bæjarstjórn hafði samþykkt erindiði var ljóst að eitt sperrubili myndi hvergi nærri duga og úr var að sveitirnar fengu tvö sperrubil og auk þess heimild til að setja upp milliloft yfir það þriðja og innrétta þannig geymslur og minniháttar fundaraðstöðu.  Jafnframt fékkst styrkur til efniskaupa bæði fyrir milliloftið og til að einangra skemmuna og lagfæra. Öll vinna við húsnæðið var unnin á sjálfboða vinnu. Sveitin tók svo þetta húsnæði í notkun á árinu 1974. Húsnæðið var óeinangrað og ekki var aðstaða til að halda almenna fundi, þetta var fyrst og fremst tækja og áhaldageymsla.

Endurbætur

Árið 1976 fékkst styrkur frá Kópavogsbæ til að koma upp snyrtiaðstöðu og einangra skemmuna og taka inn hitaveitu.  Styrkurinn miðaðist eingöngu við efniskaup en vinna skyldi áfram vera í sjálfboða vinnu og var öll sú vinna eingöngu unnin af félögum hjálparsveitarinnar, en lítil starfssemi var hjá Stefni á þessum tíma.  Endurbætur á húsnæði tóku langann tíma þar sem öll vinnan bættist við allt annað starf.

Stækkun

Vegna fjölgunar félaga og aukins búnaðar undanfarin ár var orðið mjög þröngt um starfsemina.  Fundir t.d. haldnir í Fannborg 1. Sveitin fékk árið 1981 viðbótar rými í hafnarskemmunni. Þessi viðbót var eingöngu til hjálparsveitarinnar en áður hafði verið helmingaskipti milli hjálpasveitarinnar og Stefnis.  Öll vinna við endurbætur og innréttingar var unnin af sveitarfélögum í sjálfboðavinnu eins og áður. Kom sú vinna til viðbótar við fjáraflanir svo sem sjúkragæslu, flugeldasölu, útgáfu dagatals og útburð á bæklingum fyrir fyrirtæki og stofnanir.  Með þessari viðbót var hægt að koma upp skápum fyrir einstaklingsbúnað. Var það til mikilla bóta og stytti viðbragðstíma í útköllum, því félagar gátu nú komið beint í skemmuna í stað þess að þurfa að fara fyrst heim til að sækja sinn persónulega búnað.  Endurbótum á húsnæði lauk 1983. Vegna byggingaframkvæmda á næstu lóð var ekki lengur hægt að nota inngang á suðurhlið. Inngangur var fluttur á austurhlið en aðkoma þröng og nýting húsnæðis verri. Árið 1983 var gengið til samstarfs við skátafélagið um viðgerð og rekstur á bílskúr við skátaheimilið að Borgarholtsbraut 7.  Bílskúrnum var breytt í fundarsal.

Meiri stækkun

Viðbótarrými fékkst í hafnarskemmunni árið 1984.  Norðurendinn hafði verið nýttur sem geymsla fyrir Kópavogsbæ og ýmsar stofnanir hans.  Til að fá þetta húsnæði til ráðstöfunar þurfti sveitin m.a. að sjá um að flytja þessar eigur í annað húsnæði.  Sem fyrr var sótt um styrk til Kópavogsbæjar vegna efniskaup en vinna skyldi vera á vegum sveitarinnar. Styrkur dugði þó ekki og árið 1986 var brugðið á það ráð að taka bankalán til að geta lokið við húsnæði.  Sennilega er þetta í eina skipti sem sveitin hefur tekið lán, en alltaf hefur hluti frekar verið látið vanta en stofna til skulda. Árið 1988 var skemman máluð að utan og eins og áður fékkst styrkur frá Kópavogsbæ til efniskaupa en félagar sáu um vinnuna.

Skemman keypt

20 ára afmæli fagnað 1989 með margvíslegum hætti.  Gengið var frá kaupum á hafnarskemmunni af Kópavogsbæ.  Afsal var undirritað 30. janúar 1990. Kópavogsbær samþykti að finna annað húsnæði fyrir björgunarsveitina Stefni sem hafi verið í sambúð með sveitinni frá upphafi.  Kópavogsbær veitti sveitunum sameiginlega aðstöðu í hluta hafnarskemmunnar árið 1973 og var þá um helmingaskipti að ræða. Öll aukning hafði alfarið verið til hjálparsveitarinnar, en lítil starfssemi lengstum verið hjá Stefni.  Stefnir rýmdi sinn hluta 1991 og var þá heldur rýmra um starfssemina. Hafist handa árið 1992 við að endurnýja járnklæðningu skemmunnar. Árið 1996 var gerður samningur til þriggja ára við Kópavogsbæ um styrk til að ljúka endurbótum á húsnæði sveitarinnar.  Framkvæmdir frestuðust vegna anna við Samvörð ´97, stóra alþjóðlega æfingu. Framkvæmdir fóru á fullt skrið á árinu 1998 og var efri hæðin endurnýjuð og stækkuð með millilofti í austur enda. Einnig voru allar raf- og vatnslagnir endurnýjaðar.

Samantekt

Allt frá stofnum eru húsnæðismál ofarlega á baugi.  Fyrstu 25 árin eru húsnæðismálin stór þáttur í ársskýrslum.  Jafnt og þétt fæst aukið rými í skemmunni. Kópavogsbær veitir styrk til efniskaupa, sem þó dugir ekki alltaf.  Öll vinna er unnin í sjálfboðavinnu og kemur til viðbótar við annað starf svo sem æfingar og fjáraflanir. Sveitin eflist og stækkar.  Með fleiri félögum og meiri tækjabúnaði eykst þörf fyrir húsnæði. Í hvert sinn sem búið er að innrétta og endurbæta viðbót er komin þörf fyrir meira húsnæði.  Vinnustundir vegna húsnæðis skipta mörgum þúsundum.