Útvarp var ekki í fyrstu bílunum og var ekki fyrr en Rússajepparnir voru keyptir að útvarp var sett í bílana. Til að fjármagna kaup á græjum í bílana var brugðið á það ráð að stofna sjoppu í Skemmunni. Fram að því höfðu menn gripið til ýmissa ráða og ef farið var í langferð tók Einar Hauks græjurnar úr sínum bíl til að hægt væri að hlusta á ABBA kassettuna. 

Tækjakosturinn í bílunum framanaf var almennt nokkuð rýr. Aðeins CB talstöð sem virkaði nánast bara í kallfæri og svo Gufunesstöð sem var stór járnhlunkur með stóru loftneti.

Í fyrstu voru bílarnir hafðir appelsínugulir til að þeir væru áberandi og sæust vel í landslaginu.

Eldri félagar sveitarinnar voru mjög íhaldssamir og ekki mátti berast á í tækjakosti. Uppátæki Einars Haukssonar að taka dekkin undan jeppanum sínum og setja undir Rússann fyrir eina ferðina þótti því ekki góð þar sem þetta voru stór dekk 33“ og á hvítum spoke felgum. Þetta þótti heldur glannalegt miðað við litlu dekkin og gulu felgurnar.  

Þegar sveitin keypti fyrstu Amerísku bílana sem voru GMC og Chervolet Van bílar voru þeir látnir halda sínum litum, reyndar var tekist á um það á sveitarfundi hvort það ætti að sprauta röndina í sama lit til að það sæist minna að við ættum tvo svona bíla.  Þarna hefst bílabreytingarsaga sveitarinnar fyrir alvöru meðal annars var sett No spin læsing í afturdrifið á Gemsanum og lapplander dekk sem að þótti stórt á þeim tíma. Upp frá þessum tíma hefur sveitin verið í fararbroddi með að breyta bílum þannig að þeir hentuðu sveitinni betur til björgunarstarfa.

Viltu bæta við frásögnina eða koma öðru efni á framfæri?

Hafðu samband við sögunefndina?